House
- Birta Lind Atladóttir
- Apr 14, 2016
- 4 min read

Í þessari viku horfðum við á læknaþáttinn House. Í þættinum komu þrír einstaklingar inn á sjúkrahúsið öll með sársauka í fæti. Fyrsti sjúklingurinn var bóndi sem að tjáði sig um að hafa skyndilega misst stjórn á vöðvahreyfingu og eftir það fundið fyrir miklum sársauka í ökla sem að var að dreifast ofar í fótinn. Læknanir ályktuðu svo að hann hafi verið bitinn af eitruðum snáki en þegar að mótefnið gegn snákaeitrini sýndi enga virkni vöknuðu upp spurningar um hvort um væri að ræða snákabit. Það var tekið sýni úr munnvatni hundsins sem bóndinn átti og í því fannst holdétandi baktería og þá kom í ljós að hann hafi ekki verið bitinn af snáki, heldur hans eiginn hundi. Í kjölfarið þurfti hann að gangast undir aðgerð og fóturinn sem hann var bitinn í þurfti að fjarlægja til að forðast frekari sýkingu. En hverjar eru raunverulegu hætturnar á því að vera bitinn af hundi? Er það eitthvað í líkingu við atvikið sem gerðist í House? Necrotizing fasciitis er sýking af völdum holdétandi bakteríu sem að breiðist út mjög hratt. Bakterían eyðileggur líkamsvefi, vöðva, húð og fituvefi. Necrotizing fasciitis orsakast oft af Streptococcus (GAS) bakteríu, sem að er sama tegund af bakteríu og kemur þegar að fólk fær streptókokka. Sýkingin sem bakterían veldur er lífshættuleg og á hverju ári smitast 600 – 700 manns af sýkingunni og 25% til 30% lifa ekki af. Bakterían getur myndast við meiðsli, aðgerðir, skordýrabiti og í skrámu. Einnig getur bakterían smitast við bit á öðrum dýrum, eins og hundum, en það er mjög sjaldgæft að slíkt gerist. Helstu birtingarmyndir einkennana sem koma við sýkingu eru: mikill sársauki þar sem sýkinginin myndaðist; sársaukinn er yfirleitt mun verri heldur en sýkingin kann að sýna, roði og hiti í kringum sárið, flensueinkenni og þorsti vegna ofþornunar. Einkennin byrja yfirleitt að gera vart við sig fyrstu 24 klukkutímum eftir að sýkingin átti sér stað og það er gríðarlega mikilvægt að leitast eftir meðferð við sýkingunni sem fyrst til þess að koma í veg fyrir að hún dreifi enn frekar úr sér. Það eru nokkrar tegundir af meðferðum sem að eru notaðar til að stoppa útbreiðslu bakteríunnar. Dæmi um meðferðir eru: sýklalyf í æð, fjarlægt dauðavefi, lyf sem hækka blóðþrýstingin, aflimun og blóðgjöf. Ef að einstaklingur er bitinn af hundi og tekur eftir ofangreindu einkennum þá er fræðilegur möguleiki að sýking af völdum holétandi bakteríu hafi orðið; þó að slík tilvik séu mjög sjaldgæf. En hvaða aðrar hættur geta fylgt því að vera bitinn af hundi? Það verða 4.5 milljónir manna í Bandaríkjunum á hverju ári bitinn af hundi. Það er því mikilvægt að vita hvernig skal bregðast við ef að einstaklingur er bitinn af hundi. Hundaæði er eflaust þekkt dæmi um sýkingu sem getur borist frá hundum og milli manna. Hundaæði er bráð heilabólga sem öll spendýr geta smitast af og getur veiran borist í menn við bit frá sýktum dýrum; veiran kemst í snertingu við taugar og berst þaðan yfir í taugakerfið. Þeir sem smitast af hundæði mega búast við því að fá krampaflog, þá sérstaklega í vöðvum sem taka þátt í að stjórna öndun og kyngingu. Krampanir geta versnað þegar einstaklingur reynir að drekka vatn eða jafnvel bara við að sjá vatn sem getur þróast yfir í alvarlega vatnsfælni. Fyrstu einkenni hundaæðis er höfuðverkur, sótthiti, lystarleysi, svefnleysi, bruna tilfinning og dofi í kringum staðinn sem var bitinn. Þegar að vírusinn byrjar að dreifast um miðtaugakerfið byggist upp lífshættuleg sýking í heilanum og mænunni, en þetta gerist á 3 – 10 vikum. En flestir deyja af völdum hjartsláttatruflana og úr öndunarlömun eftir 1 – 2 vikur. Það er ekki til nein meðferð sem er sérstaklega er gerð fyrir hundaæði og það eru ekki nema örfáir sem að hafa lifað sjúkdóminn af. Það er samt sem áður reynt að aðstoða líkamann við að berjast gegn veirunni með viðeigandi hætti. Sprautað er mótefninu globulín til að reyna að koma í veg fyrir að veiran valdi sýkingu. Einnig er bólefnum sprautað í líkamann til að hjálpa líkamanum að bera kennsli á vírusinn svo hann geti barist á móti honum. Þrátt fyrir að margir víðsvegar um heiminn verða bitnir af hundum og smitast af veirunni, þá eru mörg lönd (eins og Ísland) sem eru alveg laus við sjúkdóminn. Til þess að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn dreifi sér fá um 15 milljónir manns á hverju ári bólefni gegn veirunni og það er áætlað að það komi í veg fyrir að hundriðir þúsunda deyji af völdum hundaæðis. Það getur verið lífshættulegt að vera bitinn af hundi, en framfarir í læknavísindum eru sífellt að þróa með sér nýjar meðferðir og tækni til að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar. Það er því aldrei að vita hvort að það finnist bráðlega örugg leið til að lækna ástand eins og hundaæði, en á meðan þá höfum við til taks bóluefni sem ætti að vera aðgengilegt hjá öllum sem búa í löndum þar sem sjúkdómurinn er tíður. Mér finnst allavega magnað hvað bóluefni hafa náð að halda mörgum sjúkdómum í skefjum og bjargað mörgum mannslífum.
Heimildir:
http://www.webmd.com/skin-problems-and-treatments/necrotizing-fasciitis-flesh-eating-bacteria?page=2#2 http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs099/en/ http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4006 http://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/rabies/basics/treatment/con-20019900
Commentaires